sunnudagur, ágúst 29, 2004
Arnon-inn í lífi mínu
Hann Arnon vinur minn frá Ísrael hringdi áðan og við töluðum saman í tvo og hálfan tíma. Við hefðum alveg áreiðanlega getað talað saman í aðra tvo og hálfan tíma í viðbót en það hefði sett mömmu hans endanlega á hausinn. Arnon er án efa ein almerkilegasta manneskja sem ég hef kynnst og það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki til hans og hvað hann sé að gera. Eftir að tala við hann í tíu mínútur hef ég nóg hugsanafóður fyrir næstu vikuna, svo þið getið ímyndað ykkur hvort ég hafi ekki um nóg að hugsa fram að jólum eftir maraþonsímtalið í dag! Kannski hef ég algjörlega rangt fyrir mér hér en ég gæti trúað að ég sé alveg sérstakrar og sjaldgæfrar gæfu aðnjótandi að hafa kynnst einhverjum eins og honum. Hann er stöðug áskorun og heldur mér stöðugt á brún hengiflugsins svo að segja. Þegar ég tala við hann þarf ég stöðugt að endurskoða sjálfa mig, skoðanir mínar og það sem ég trúi á; ekki vegna þess að hann sé að reyna að brjóta mig niður heldur vegna þess að hann kemur mér til að hugsa um allt á nýjan hátt. Mér skilst að ég hafi svipuð áhrif á hann. Eftir hverjar samræður við hann finnst mér ég hafa stækkað og orðið meiri manneskja. Þetta getur tekið mikið á en er allrar vinnunnar fyllilega virði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli