Noemi, fyrrverandi leigusalinn minn, man þegar hún var barn á flótta undan nasistum. Hún er fædd í Belgíu en flúði til Bretlands sem barn í seinni heimstyrjöldinni. Hún sagði okkur frá þessu í framhjáhlaupi og brosti um leið til Leticiu sem hafði spurt um nafnið hennar. Við stóðum þarna fjórar í forstofunni, að ljúka leiðinlegu verki, og ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig hvers vegna í ósköpunum við gerum okkur lífið svona erfitt, hvers vegna við búum okkur til okkar eigin heimatilbúnu helvíti, í staðinn fyrir að virða hvert annað og þakka fyrir að búa ekki við viðlíka ógnir og Noemi ólst upp við. Mér fannst ekki mikið til okkar koma þarna á þessu augnabliki í forstofunni.
Í gær horfði ég á Cold Mountain, milli þess sem ég pakkaði og þreif. Var löngu búin að ákveða að taka mér frí frá þeim verkum til að sjá hvaða mynd sem væri á dagskrá það kvöldið í Maplewood. Þurfti sárlega á einhverju að halda til að dreifa huganum. Ég sogaðist inn í myndina, mynd sem mér fyndist sennilega ömurlega væmin á öðrum stundum, og fannst hún jafnvel á tímabili næstum tala til mín. Ástandið á mér var ekkert til að hrópa húrra fyrir en á einhvern hátt hafði myndin róandi, jafnvel sefjandi áhrif á mig.
Og nú er ég flutt úr Hlynskógum, enginn þarf að senda mér línu þangað aftur, takk fyrir. Það er gott að vera farin en það er ekki gott að eiga hvergi heima, eins og núna. Leigan mín við vatnið byrjar 22. ágúst, eftir rétt rúma viku, og á meðan er ég hjá vinum. Þeir hafa ekki beint vaxið á trjánum hér, hverju svo sem það nú er um að kenna, og einhverjir orðnir hálfrotnir og fallnir til jarðar. Ætla til Deepti vinkonu um næstu helgi og ætla að koma mér úr bænum yfir vikuna líka. Hafa með haug af greinum að lesa og reyna að koma huganum í skorður fyrir komandi vetur. Á bara eftir að ræða það við leiðbeinandann minn, ég á ekki von á að hann neiti mér. Að minnsta kosti vona ég ekki.
laugardagur, ágúst 14, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli