Komin aftur til Íþöku. Ekki laust við að ég sé sybbin enda fékk ég ekki nema tæplega þriggja stunda svefn í nótt. Vélin alltof snögg á leiðinni, lenti á JFK heilum hálftíma á undan áætlun. Það dugði samt ekki til að ég næði Eiríki út af langlegudeildinni í tæka tíð, hann var lagður inn kl. 05:41 þann 17da og tekinn út kl. 05:43 þann 20ta og vitaskuld var ég látin borga fyrir fjóra daga. Þrír dagar og tvær mínútur, námundað að næsta heila gerir það náttla fjóra daga. Hver sagði að tölvur væru betur í stakk búnar til að framkvæma erfiðar reiknikúnstir en mannfólkið??
Mikið svakalega var gaman að koma til Denver. Við Digga frænka náðum svona líka vel saman og skemmtum okkur vel í öllum bíltúrunum okkar (borgin er svo víðfem að minnsta viðvik tekur hálftíma í bíl) og á spjalli heima hjá henni. Kisan hennar sá mig geispa einu sinni og var skíthrædd við mig eftir það, það er náttla svoldið miður en kannski ágætt því ég er með ansi hressilegt ofnæmi fyrir kisum. Nú, svo fann ég hina STÓRKOSTLEGU bókabúð Tattered Cover í miðbænum og sat þar í tvo tíma í gær að lesa jarðfræði; kona þarf sko aldrei að verða óhamingjusöm eða leið á lífinu meðan svona búðir eru til. Larimer Square er líka alveg yndisleg gata, full af skrýtnum og skemmtilegum búðum eins og t.d. kúrekastelpu-búðinni. Hins vegar verður að segjast að hið tiltölulega nýja listasafn þeirra Denverbúa er með eindæmum ljót bygging (veit ekkert um innvolsið). Ef ég væri skattgreiðandi þar í borg hefði ég mætt á vígsluathöfnina með nokkra vel valda úldna tómata og rotin egg.
Sá því miður minna en til stóð af fjöllum og Boulder vegna úrhellisins sem áður var greint frá. Það er kannski bara ágætt, ég hef þá alla vega ástæðu til að fara aftur þarna vestur eftir!! Keypti mér líka Lonely Planet USA-bók og blaðaði svoldið í henni heima í stofu hjá Diggu. Helst þyrfti ég að hætta í námi og einbeita mér að ferðalögum ef ég ætti að fara eftir öllu sem stungið er upp á í bókinni. Held ég sleppi því í bili og láti mig dreyma um þrjár "minni" ferðir í staðinn: Sigling um firði Alaska, hjóla leiðina sem Lewis og Clark fóru fyrir sléttum 200 árum, og fara á road trip niður Blue Ridge Parkway í Virginíu og Norður-Karólínu. Langar einhvern með??
föstudagur, ágúst 20, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli