Hafi einhver nokkurn tímann haldið að fólk sem kannar hella að gamni sínu sé eðlilegt skal sá misskilningur leiðréttur hér með.
Í gær var haldið heim til einnar í útiklúbbnum eftir vikulegan fund nördanna. Hún er nýflutt í húsið sitt og var um helgina að koma eldhúsdótinu sínu fyrir með aðstoð vinar síns sem finnst mjög gaman í hellum (og er þessa stundina ofan í e-m risahelli í Arizona sem innan við 100 manns fá að heimsækja á ári, kannski því hann er álíka langur til samans og hringvegurinn og hver leiðangur ofaní hann tekur um viku). Manninn hefur sennilega verið farið að hlakka allgífurlega til að fara oní stóra stóra hellinn því hann tók smá upphitun í eldhússkápunum og tróð sér inn í alla skápa sem hann mögulega komst inní. Hann Jim, sem hér um ræðir, er rétt tæplega 1.90 m á hæð, svo það var ekki mikið mál fyrir okkur "dvergana" að leika leikinn eftir og áður en hendi var veifað voru allir sem mættu í heimsókn komnir inní og útúr skápnum. Með einni undantekningu þó. Hann Ari er ekki lítill átta ára trítill, hann er líklega einir 2 m á hæð og komst ekki fyrir sitt litla líf inn í skápinn. Þar sem hann er þrjóskari en andskotinn sjálfur ætlaði hann ekki að gefast upp svo auðveldlega og hékk því hálfur inni í skápnum í langan tíma, spriklandi og emjandi og æpandi. Á tímabili leit út fyrir að hann myndi hafa það af að troða sér inn og þá varð húseigandinn nýbakaði dáldið smeyk um að fyrstu meiriháttar aðgerðirnar sem þyrfti að ráðast í í húsinu væri að rífa niður eldhúsinnréttinguna til að ná Ara út. Við hin skemmtum okkur konunglega eins og gefur að skilja.
miðvikudagur, ágúst 11, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli