sunnudagur, apríl 04, 2004
Þessi færsla er rituð á Silfurskottu... sem betur fer
Þessa stundina hanga jakkinn minn og bakpokinn upp á annan endann inni í sturtu eftir fyrstu umferð beggja í þvottavél. Undirrituð sá viðskiptavinum í TOPS-versluninni á College Avenue neflilega fyrir fyrsta flokks skemmtiatriði núna um kvöldmatarleytið: Ég var að ná í péníngana mína úr buddunni og leit eitt andartak af bakpokanum sem ég hafði tyllt á afgreiðsluborðið til að setja innkaupin mín ofan í. Sá gerði sér lítið fyrir og steyptist í afturábak kollhnís fram af afgreiðsluborðinu og beint niður á gólf. Mjólkurpotturinn opnaðist og úr honum allt svo tveir lítrar af undanrennu flæddu yfir Silfurskottu, greinarnar mínar, glósur vikunnar og allt hitt draslið og þaðan út á gólf. Með aðstoð samlokumannsins í horninu (mannsins sem stendur alltaf að smyrja samlokur ofan í kúnnana í einu horni búðarinnar) þurrkaði ég versta ósómann upp úr pokanum (les. hellti ofan í vask geisladiska-kremdollu-millistykkja-undanrennusúpunni) og tróð svo öllu draslinu oní pokann aftur, vandlega pökkuðu í plastpoka til að hindra frekari skaða. Svo rölti ég með undanrennuna á bakinu heim, sá göngutúr gaf jakkanum mínum ágætis tækifæri til að drekka í sig smá undanrennu líka. Núna lykta ég eins og Mjólkurbú Flóamanna og sé mér þann kost vænstan að setja sjálfa mig líka í þvott áður en lengra er haldið. Hasta la vista, beibí.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli