fimmtudagur, apríl 22, 2004

Slot, ekki kot

Loksins loksins, og mikið var! Við tryggðum okkur tjúllað sæta íbúð í dag og skrifum undir leiguna á mánudaginn kemur (leigusölukonan þarf að tékka meðmælin okkar fyrst...). Jibbí!!

Það var náttúrulega algjört slys að við skyldum finna þessa íbúð. Við vorum á leiðinni að skoða óspennandi kjallaraholu í sama húsi en ég vissi ekki að þetta var í kjallara svo ég gekk beint að aðalinnganginum og barði að dyrum. Konan sem kom þar til dyra var alveg á því að við værum að fara að skoða hjá henni en Gaby hélt nú ekki, íbúðin okkkar væri í kjallaranum. Ég sá bara parket í stofunni bak við konuna og dauðadæmdi þar með kjallarann á staðnum. Eftir skylduþramm um þá holu báðum við um að fá að sjá þessa forláta parketlögðu þriggja herbergja íbúð á jarðhæðinni og undirrituð varð gjörsamlega ástfangin.

Ákvörðunin var nú samt ekki auðveld. Leigusalinn á Tjarnarstræti er fyrir það fyrsta svo hrikalega indæll að það hálfa væri yfirdrifið. Við fengum að skoða íbúðina hans aftur í dag og hefðum svo sannarlega tekið hana ef við hefðum ekki slysast inn í þá þriggja herbergja. Hverfið þar er mjög fallegt... en slotið okkar á Seneca-stræti er 5 mínútna rölt frá miðbænum, með sérinngangi og verönd og garði og frönskum glugga-hurðum og baðkari og... bara algjört æði. Nú er bara að finna þriðja meðleigjandann og, þar sem að leigusamningurinn byrjar fyrsta júní, einhvern til að borga leiguna í sumar (helv... kellingarnar á stúdentagörðunum vilja ekki sleppa mér frá leigusamningum mínum þar sem endar um miðjan ágúst... djö.... andsk....).

Engin ummæli: