miðvikudagur, júní 30, 2004

Ástin fiskanna

Er í Steinunnar Sigurðar-ham þessa dagana. Fékk eitthvert brjálað kreiving á Tímaþjófinn um daginn þegar tilvitnun úr þeirri bók í bókinni "Íslensk orðsnilld" skaut upp í huga minn. Arkaði stórstíg á Olin-bókasafnið og náði mér í þrjár af bókunum hennar; Tímaþjófinn, Síðasta orðið og Ástina fiskanna. Las þá síðastnefndu í gærkveldi. Hún er ótrúleg.

Nostalgía II

Ætti að sjálfsögðu að vera löngu farin að sofa en rakst á dagbókina hennar Sivjar Friðleifs og gat ekki slitið mig lausa. Hún skellti sér neflilega með í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins í byrjun júní og setti heilan haug af myndum á Netið. Dagbókin kemur upp í vikuskömmtum, kíkiði á sunnudaginn 6., mánudaginn 7. og þriðjudaginn 8. júní. Myndirnar koma í ljós þegar þið klikkið á græna letrið. Er ekki frá því að hún hafi skemmt sér vel og verið alveg absúrd heppin með veður.

Ætli það verði einhvern tímann jafngaman í feltvinnu á Nýju-Gíneu eins og það er á Vatnajökli???

Molar

Var á nördasamkomu ársins hér áðan. Eftir útiklúbbsfundinn fórum við nokkur sem leið lá heim til Donz og komum á leiðinni við á mexíkó-búllunni Viva og náðum okkur í burritos. Við hlustuðum á eina nýkomna frá Ekvador segja ferðasöguna (það sem eftir var af henni, í lok fundarins fengum við neflilega 205-mynda slædssjó) meðan við borðuðum og einhver minntist á vefsíðu klúbbsins. Umsvifalaust upphófust þvílíkar samræður um vefviðmót og servera og gvuðveithvað og áður en hendi væri veifað voru tvær ferðatölvur komnar upp á borðstofuborð og allir farnir að bauka við þráðlausu tenginguna og byrjaðir að forrita nýja vefsíðu. Við erum nördar af gvuðs náð.

Vinur minn hann Greg varð svo æstur á gestafyrirlestri í dag að við Louise urðum að fara með hann út að labba á eftir, svona til að hann næði andanum. Gestafyrirlesarinn var að tala um strendur og stöðugleika þeirra; til að rannsaka það fyrirbæri notast hann við aðferð sem var að nokkrum hluta þróuð af öldnum snillingi hér við Cornell sem nýlega lét af störfum. Aðferðin kallast "fractals" á ensku, ég hef ekki grænan guðmund um hvað það heitir á íslensku. Þetta er ákveðin stærðfræðileg nálgun sem má nota til að lýsa mjög mörgum fyrirbærum í náttúrunni, t.d. snjóflögum, verðbréfamörkuðum, strandlengjum og tíðni flóða í ám og fljótum. Þrátt fyrir lýsingakraft sinn geta fractals ekki útskýrt orsakir nokkurs skapaðs hlutar. Eitthvað fór það fyrir brjóstið á Greg og upphófust mjög skrautlegar rökræður milli hans og fyrirlesarans. Allt fór þetta reyndar vel fram en það tók drenginn smástund að ná sér niður. Gaman þegar vísindin hrista svona upp í fólki :)

Erna vinkona sendi mér pakka um daginn sem er í raun svo merkilegur að hann verðskuldar nánast sérbloggfærslu:

Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót...

Í pakkanum var frostþurrkaður þroskapottréttur í frostþurrkaðri rjómasósu. Þetta hljómar verra en það er; rétturinn er meðlimur norsku Real Turmat-fjölskyldunnar sem hefur haldið lífinu í ófáum Norðmanninum á norðurslóðum (og líka undirritaðri í ótal hádegispásum á vélsleðaferðum á Svalbarða). Þennan umrædda pakka keypti ég á Svalbarða vorið 2002 og tók með mér heim til Íslands þá um sumarið. Við Erna höfðum ákveðið að ganga frá Mývatni til Ásbyrgis og ég vildi endilega að við hefðum með léttan mat sem auðvelt væri að laga. Eitthvað borðuðum við minna á göngunni en til stóð svo þorskurinn og rjómasósan döguðu uppi á hillu hjá pabba hennar Ernu í Breiðholtinu. Fram að því hafði hann fengið að dinglast með í bakpokanum á puttanum frá Ásbyrgi á Húsavík, þaðan inn í Reykjadal þar sem slegið var upp tjaldi bak við félagsheimili og gist, svo áfram í bifreið dauðans: húsbíl þýskra hjóna (troðfullum af proviant) inn á Mývatn og þaðan upp að Kröfluvirkjun þar sem við lentum í gini fokills virkjunarstarfsmanns sem jós yfir okkur skömmum að við skyldum voga okkur að ganga leiðina svona snemmsumars, hvort við ætluðum að gjörsamlega rústa heiðunum og gljúfrunum með göslaraganginum á okkur. Hvorug okkar kunni við að benda manninum á að sama hvað við myndum reyna þá tækist okkur líklega seint að valda öðrum eins náttúruspjöllum og hans hágöfuga kompaní Landsvirkjun, svo við bara settum upp sparibrosið og örkuðum einbeittar af stað út í þokuna. Eftir villur, gust frá framliðnum, ískaldar og bólgnar ár í leysingum, meintar sandbleytur, flugbeitt grjót sem var vont að detta á, flóð í Vesturdal, stíflugerð í fornum farvegi og fjögurra daga sleitulaust labb komum við loks þreyttar og alsælar niður í Ásbyrgi þar sem bíllinn beið. Við brunuðum í sund á Húsavík og þaðan suður til Reykjavíkur eftir góðan nætursvefn á Staðarhóli þar sem ég þekkti til úr vinnunni minni sem gæd hjá Iceland Safari hér í den.

Eftir þessi ævintýri tók við verðskulduð hvíld frá brölti hjá þorskkássunni, það líður og bíður og kássan okkar situr bara uppi á hillu í Hólunum. Núna í maí fór Erna svo heim til Íslands á ríjúníon hjá MR-árganginum okkar og rakst á þorskinn uppi í hillu. Vitandi að ég er að fara í gönguferð uppi á hálendi núna í byrjun júlí tók hún stöppuna með sér út, svo að ég gæti tekið hana með í labbið. Þannig fór kássan aftur í flug, í þetta sinnið alla leið til Ameríku og pósturinn sá svo um, eins og áður sagði, að koma henni til Íþöku.

Sjálf hef ég hugsað mér að bera þennan trausta ferðafélaga minn síðustu sporin; yfir hafið aftur til Íslands og inn á hálendi. Þar munum við vonandi loks fá að renna saman í eitt, kannski við undirleik Kringilsár þar sem hún kemur undan jökli eða húkandi í skjóli fyrir veðri og vindum undir gulu skrímsli við rætur Kárahnjúks.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Just in case...

... að þið séuð farin að halda að ég sé brjálaður rasisti og whatnot: Þessi pirringur minn út í stúdentagarðana er ekki til kominn af því mér sé svo illa við að hafa (aðra) útlendinga í íbúðinni "minni" heldur eingöngu vegna þess að allt er svo illa skipulagt þarna að þeir láta mann vita með nokkurra klukkutíma fyrirvara að nýtt fólk sé að flytja inn. Ég hafði ekki einu sinni tíma til að þrífa svínastíuna sem baðherbergið mitt var orðið áður en systurnar frá Tævan fluttu inn og önnur þeirra á jú að deila baði með mér. Þerfor ðe pirr. Og svo auðvitað líka massa pirr yfir leigusamningnum mínum svona almennt. En, sólin skín í heiði og ég nenni ekki að vera pirruð. Þreif bara baðherbergið eldsnemma í morgun svo nú getur mín nýja stallsystir farið þangað inn án þess að óttast um heilsu sína.

mánudagur, júní 28, 2004

Enn fleiri meðleigjendur

eru á leiðinni, þetta ku vera tvær systur sem báðar eru á leið í intensíva enskukennslu í sumar. Það er ekkert verið að gefa manni neinn fyrirvara, þær flytja víst inn í dag. Mikið svaðalega verð ég fegin að losna út af þessum stúdentagörðum og undan öllu krappinu sem þeim fylgir!!!

sunnudagur, júní 27, 2004

Fahrenheit 9/11

Helgin fór vel af stað með bíóferð á föstudaginn. Jack skólafélagi minn hafði náð í miða fyrir nokkra af okkur jarðfræðinörðunum á frumsýninguna á Fahrenheit 9/11, það var að sjálfsögðu uppselt og langar biðraðir fyrir utan. Okkur var sagt að fólk sem býr í mörg hundruð mílna fjarlægð hefði hringt í eigendur bíósins til að reyna að fá miða!

Myndin er algjör snilld og ekkert að reyna að vera eitthvað annað en hún er: Harkaleg gagnrýni á Bush-stjórnina og allt sem hún stendur fyrir. Fólkið í salnum var vel með á nótunum, klappaði og blístraði og búaði eins og við hæfi var. Ég hef aldrei upplifað eins viðbrögð í lok myndar; þegar myndin endaði sátu allir sem fastast og enginn stóð upp fyrr en tjaldið var orðið myrkt og öll kreditin höfðu rúllað sitt skeið á enda. Þetta var svona furðuleg blanda af því að vera gjörsamlega ofboðið og vilja samt sjá meira.

Fór í gær með Louise vinkonu og Bruce samstarfsmanni okkar og hundunum hans tveimur að labba, við gengum þriðja legginn í sýslugöngunni sem genginn verður opinberlega þegar ég er á Íslandi. Fengum fínt veður og gengum þessar 8.1 mílur á fjórum tímum. Það verður nú að segjast eins og er að þetta er ekki neinn svakalegur meðalhraði. Vonandi bara að ég verði ekki skilin eftir oní polli einhvers staðar uppi á hálendi í göngunni miklu eftir rúma viku.

Sem minnir mig á: Það er að verða voðalega stutt í Íslandsferð. Hlakka til að sjá ykkur!!

Nýi meðleigjandinn

valt hér inn á gólf hjá mér seinni partinn í gær, dauðþreytt eftir 25 stunda ferðalag frá Sól í Suður-Kóreu. Nafnið sem hún kynnti sig með hljómaði allt öðru vísi en nafnið sem stóð í tölvupóstinum þegar mér var náðarsamlegast tilkynnt um komu hennar, ég skrifa það á svipaðan effekt og þann sem Ameríkanar urðu fyrir þegar ég kynnti mig hér fyrst um sinn, áður en ég aðlagaði framburð nafnsins míns að talfærum Ameríkana: Hördæs. Sólarstúlkan leggur stund á kóreanskar bókmenntir og er hingað komin til að bæta enskukunnáttu sína á sumarnámskeiði.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Tilfæringar við miðbaug

Aðvörun: Þessi póstur er langur og sennilega finnst flestum hann leiðinlegur, enda fjallar hann h.u.b. bara um jarðfræði og álíka skringilegheit. Lesið á eigin ábyrgð ;)

Ég má til með að segja lauslega frá síðustu tilfæringum og þróun mála hér í Íþöku. Þannig er mál með vexti að ástandið í Nepal, þar sem við höfum alltaf gert ráð fyrir að ég myndi vinna að doktorsverkefninu mínu, er orðið mjög skuggalegt og ekki beint fýsilegt að leggja upp í vísindalega langferð á þeim slóðum þessa dagana. Nepölsk kona sem við Lou, leiðbeinandinn minn, hittum í dag benti okkur á nokkur svæði þar sem við gætum hugsanlega unnið - því miður er ekkert á þeim svæðum sem tengist heitu hverunum og svæðin þar sem væri áhugavert að vinna eru þessi misserin undirlögð af maóistum.

Í ljósi þessa hefur verið smá heilastormur í gangi hér við að útbúa plan B, sem yrði sett í gang ef við afskrifum Nepal-verkefnið algjörlega. Ég er að lesa aftur helling af greinum sem ég las á hundavaði í vetur fyrir umræðukúrs í jarðefna- og landmótunarfræði í þeirri von að finna einhverjar spennandi spurningar sem enn hefur ekki verið svarað (það er nóg af þeim þarna úti). Lou hefur líka greinilega seilst ofan í nokkrar skúffur hjá sér og dregið fram gömul og ný gæluverkefni sem fyrri nemendum hans hefur ekki litist á einhverra hluta vegna.

Sjálfri datt mér í hug að skoða betur ýmis efnafræðileg ferli sem eru í gangi á efri breiddargráðum, með það fyrir augum að finna svör við spurningum um hlut efri vs. neðri breiddargráða í kólnuninni sem varð á sl. 15-20 milljónum ára um alla jörðina. Við ræddum þetta fram og til baka einn daginn og í ljós kom að þetta er allt of stórt verkefni til að gera í doktorsnámi. Vá, ég sem hélt að doktorsverkefni væru þau stærstu! Ferðalög til Kamtsjatka og Aleutian-eyjabogans eru sem sagt ekki á dagskránni á næstunni, helv. bömmer. Ég sem hélt að grad school væri ferðaskrifstofa.

Nei, bara segi svona. Það hefði verið mjög gaman að skoða þetta en ég ætla nú ekki heldur að vera í tíu ár að fá þessa gráðu mína hér.

Önnur hugmynd er komin upp á borð og snýst sú um að staga í upplýsingagatið sem er staðsett yfir SA-asísku eyjunum, milli meginlanda SA-Asíu og Ástralíu. Það er talið að magn sets sem berst með ám frá þessu svæði út í úthafið sé mjög mikið en lítil sem engin gögn eru til um efnasamsetningu árvatns frá þessum slóðum. Ef ég tek þetta verkefni að mér mun ég fara þangað niður eftir til að taka sýni nokkrum sinnum auk þess að sitja alveg heillengi við tölvu og nota landfræðileg upplýsingakerfi til að mjólka gögnin mín og annarra alveg eins og hægt er. Eins illa og mér er nú við hita og pöddur og gróður almennt (nema blómin á tröppunum hjá mér) hljómar þetta verkefni merkilegt nokk alveg ótrúlega spennandi. Ef við fengjum góðar niðurstöður myndu þær neflilega kannski gera okkur kleift að svara mikilvægum spurningum um samspil veðrunar og loftslags sem fólk hefur deilt um í mörg ár.

Spennó spennó... eða það finnst mér :)

mánudagur, júní 21, 2004

Skoðanakúgun??

Fyrir langa löngu setti ég límmiða á skrifstofuhurðina mína sem á stendur "Bush must go". Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir að miðinn er horfinn. Ræstingakonurnar kannast ekki við að hafa fjarlægt hann og enginn af skrifstofufélögum mínum heldur. Ætli stuðningsmenn Dubya séu komnir á stjá í friðsæla jarðfræðihúsinu okkar?? Ég bara spyr.

Hatihat

Djö... hata ég það þegar eldrebbi neitar að kannast við URL-ið að síðunni minni.

Annars er það helst í fréttum að ég held að silfurskottan, sem ég fann á gólfinu í stofunni minni og hvolfdi glærum kertastjaka yfir fyrir nokkrum vikum, sé dauð. Það þýðir væntanlega að ég ætti að manna mig upp í að lyfta upp kertastjakanum og fjarlægja líkið. Ég get bara ómögulega fengið mig til þess. Sérstaklega af því það er uppþornaður sveppur við hliðina á grafhýsinu. Hann datt undir sófa eitthvert kvöldið stuttu eftir að skottan var gómuð og þar sem ég var mjög upptekin við að maula pizzuna mína og vera um leið spennt yfir 24 og Kiefer að reyna að bjarga konu sinni og dóttur frá brjáluðum serbneskum terroristum gat mér tæplega staðið meira á sama um sveppsneið undir sófa. Núna, svona löngu síðar, er mér eiginlega enn meira sama um sveppsneið undir sófa. Sjálfboðaliði, einhver??

Smart

Fyndna víólustelpan (sem ég þekki reyndar ekki neitt, mér vitanlega) á snilldarinnkomu á bloggsviðið öðru hverju. Hún grefur líka upp ótrúlegustu hluti á Vefnum.

Svo mikið að gera, svo lítill tími

Þetta stendur allt til bóta en í augnablikinu er bara enginn tími til að blogga hér á þessum bæ. Í fréttum er það helst að ég hef gerst container gardener, er búin að taka undir minn verndarvæng Eirík hinn rauða (17 ára gamlan bíl sem sá fram á að enda uppi munaðarlaus þegar réttir eigendur hans fara í vettvangsvinnu til Perú og Bólivíu), er búin að horfa á 16 fyrstu þættina af 24 (með Kiefer Sutherland) með honum Greg vini mínum og er að farast úr spenningi, og er byrjuð að þýða doktorsritgerð í strúktúrjarðfræði úr þýsku yfir á ensku til að eiga fyrir farinu til Chile í nóvember. Viel zu tun, ja!!

fimmtudagur, júní 17, 2004

Sjokk á dag kemur skapinu í lag

Um daginn skrifaði ég kontaktinum mínum hjá IIE (Institute of International Education, stofnunin sem sér um Fulbright-styrkþega) vegna heimferðarinnar í júlí. Ég þarf að endurnýja vegabréfsáritunina mína heima og var nokkuð viss um að ég þyrfti einhverja pappíra til þess. Ljúflingurinn hún Jen svaraði póstinum mínum í dag með því að senda mér aftur einhvern langlokupóst sem ég fékk víst í mars og henti, enda var subject-línan eitthvað um heimferð að loknu námi. Eða svo sýndist mér. Turns out að pósturinn var um það hvernig maður viðheldur hinum sk. non-cash benefits sem fylgja Fulbright, þ.e. sjúkratryggingu (sem er nú ekki neitt svakalega góð, alla vega lítur Cornell ekki við henni) og vegabréfsáritun/löglegum innflytjendastatus. Umsókninni um þetta átti að skila inn ekki síðar en 1. mai.

Undirrituð fékk taugaáfall á staðnum. Sá fyrir mér að ég yrði deporteruð með háði og skömm og að fyrrverandi skólafélagar og vinir myndu kasta að mér eggjum og morknum tómötum og kalla mig unpatriotic.

Þessi martraðarsýn entist nú bara í nokkrar sekúndur; ég hristi hana af mér þar sem ég hentist af stað um bygginguna að leita að öllum þeim urmul af fólki sem þarf að skrifa undir hér og þar og pródúsera fylgibréf og stuðningsbréf. Að mesta æsingnum yfirstöðnum hringdi ég svo í ljúflinginn hana Jen og spurði hana, enn með öndina í hálsinum, hvort ég væri nokkuð í jafndjúpum skít og ég héldi. Hún hló og lofaði að redda málum.

Svo nú er ég komin í agalega gott skap aftur, alveg til í að fara að grilla pulsur og kyrja ættjarðarsöngva í rigningunni í Stewart Park núna á eftir.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Elsku Vigdis



Hahaha, þvílík snilld!

Er hérna bara rotuð á skrifstofunni. Ætlaði i jarðarberjatínslu i morgun en missti af liðinu, fór í gymmið i staðinn og hef greinilega tekið svona hressilega á að ég er tæplega með meðvitund núna. Held ég fari snemma að sofa í kvöld, alltof sjaldan sem það gerist.

Hér á að sjálfsögðu að halda upp á 17. júní, og til ad sýna okkur Íslendingunum samstöðu hefur veðurspáin meldað rigningu. Þetta verður sem sagt alvöru íslenskur fílíngur, grillaðar pulsur, rok og rigning. Jibbí!

mánudagur, júní 14, 2004

Steluþjófur

Einhver hér í næsta nágrenni er með þráðlaust Internet og kann ekki að læsa tengingunni sinni. Á hans/hennar kostnað er ég búin að sörfa í kvöld, lesa póstinn minn og Moggann og spjalla við hana Ernu á MSN-inu. Vonandi að þau fatti þetta ekki, því ég er of nísk til að borga mitt eigið Internet í sumar.

sunnudagur, júní 13, 2004

Adda padda

beit mig i löppina i gær þegar ég var i mánaðarlegu gönguferðinni med Louise vinkonu og hinum hundrað skrilljón göngugörpunum. Adda padda er leiðindapadda sem ber með sér lyme-sjúkdóminn ógurlega. Sá sjúkdómur veldur síþreytu og liðagigt og hausverk og gvuðveithverju. Ég var bara hreinlega byrjuð að skrifa erfðaskrána en las svo á Netinu (gvöð blessi Netið, blessaður kallinn) að líkur á smiti eru u.þ.b. engar ef Adda padda hefur skemmri viðdvöl a fórnarlambi sínu en 36 klukkustundir. Ég held að þessi Adda (eða Addi, maður veit aldrei) padda hafi ekki nað 36 sekúndna viðdvol á kálfanum á mér, svo líkurnar á því að yfir mér hafi verið kveðinn lyme-sjúkdómur eru 36 sek/(36 klst * 60 mín/klst * 60 sek/mín) = 0.03% af u.þ.b. engum líkum = engar líkur. Sjúkket mar!

föstudagur, júní 11, 2004

Konsúll

Frekar ánægð með aðalræðismann Íslands í NYC þessa dagana. Ég meilaði á hann um daginn vegna forsetakosninganna og hann hringdi í mig á föstudaginn til að útskýra fyrir mér hvernig þetta fer fram. Ég þarf að fara til NYC til að kjósa (watch out, Ernie&Mud, ég er á leiðinni!!) og ef ég kemst bara um helgi þá ætlar hann að ræsa einhvern út fyrir mig. Toppnáungi.

The Maine thing

Ferðin til Maine var ÓHEMJU skemmtileg. Tíu tíma bílferð gekk alveg ótrúlega stóráfallalaust fyrir sig og ekki skemmdi góður félagsskapur fyrir, Louise og Ray maðurinn hennar og hann Greg stórvinur minn. New York, Massachusetts og New Hampshire-fylki voru öll lögð að baki og eftir að við ókum yfir brúna inn i Maine hvarf ekki brosið af Lousie og Greg, Maine-urunum sjálfum.

Louise og Ray fóru í fjölskylduboð og e-n rómó sumarbústað en við Greg fórum heim til foreldra hans. Þau eiga hús á lítilli eyju í Penobscott-flóa og þangað fórum við á bátnum þeirra á laugardagsmorgninum. Siglingin tók eitthvað um hálfan annan tíma og ég lagði mig undir þiljum, enn dauðþreytt eftir keyrsluna og vikuna almennt. Ég missti víst af seglskútum og eldgömlum vitum og whatnot, en little did we know ad daginn eftir myndum við komast í enn flottari bátsferð.

Husið þeirra á Arnareyju var byggt um miðja nítjándu öld, ef ég man rétt, en er í ótrúlega góðu ásigkomulagi. Eftir grillaðar pulsur í hádegisverð hófst fjölskyldan handa við að slá blettinn og gera við brunninn meðan liðleskjan ég lagðist í sólstólinn og fékk mér blund. Mér hefndist fyrir letina þvi moskítóflugu-óbermi kom og stakk mig í kálfann og bitið bólgnaði út og á tímabili leit ég út eins og ég væri með fótbolta á kálfanum!

Foreldrarnir stungu af um eftirmiðdaginn og við röltum yfir eyjuna (kortér) í heimsókn til Bob og Helene, hjóna sem hafa búið þarna allt sitt líf. Þegar Greg var yngri vann hann hjá þeim í nokkur sumur og engu munaði að hann hefði valið líf trillukarlsinsáa humarskaki fram yfir líf jarðfræðingsins. Svo fór sem fór og þess vegna er Bob orðinn nokkuð vondaufur um að einhver taki við útgerðinni þegar hann hættir. Þessa dagana lifa þau hjónin af ferðamönnum og viðhaldi á sumarhúsum annarra hér og þar á eyjunum í flóanum. Okkur var boðið í dýrindis kvöldmat og það varð úr að daginn eftir myndum við slaufa heimsókn í Acadia-garðinn og hjálpa Bob i vinnunni i staðinn.

Það voru ekki óýyt skipti því í staðinn fyrir að rölta um malbikaða göngustíga innan um akfeita túrhesta sigldum við milli eyjanna, löguðum flotbryggjur og sáum sumarbústaði ríka fólksins. Mér hlotnaðist sá heiður að þrífa að innan vatnstankinn við bústað fjölskyldu fyrrverandi forseta Stanford-háskóla, eins agalega merkilegt og það nú er ;), og á Bjarnareyju hitti ég konu sem býr þar í algjöru Hobbitalandi á sumrin, ræktar lífrænt grænmeti, býr til skartgripi úr fjörugrjóti og gætir sumarhúsa annars ríks og lánsams fólks. Svo talaði ég eins og ég gat við Bob um lífið á eyjunum og tók myndir eins og mér væri borgað fyrir það. Kannski ég skanni einhverjar inn og leyfi ykkur að sjá.

Á mánudeginum keyrðum við svo aftur heim til Íþöku og hversdagsleikinn tók við. Ég á alveg áreiðanlega eftir að fara til Maine aftur, svei mér þá, ég held ég gæti m.a.s. hugsað mér að búa á þessari eyju þarna.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Dýrkeypt glimmer

Spurning dagsins: Hvað eru tíu glimmerflögur, hálfur millimetri og stærri, í glerglasi?

Svar: Afrakstur átta tíma setu við smásjána með flísatangir í báðum höndum.

föstudagur, júní 04, 2004

Limra dagsins

Hann vanhæfur kemur að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Hvert barn má það sjá
að Bónus hann á.
Það er mynd af honum í merkinu.

Frá pabba, höfundur er mér algerlega ókunnur

Ekki það að ég sé endilega sammála, en hún er góð :)

fimmtudagur, júní 03, 2004

Námugröftur, framleigjendur og laaaaaaaaaaaaaangur bíltúr

Sit núna sveitt við að grafa upp upplýsingar úr rykföllnum skræðum úr kjallara bókasafnsins. Jarðfræði Himalaya-fjallanna er greinilega ekki vinsælasta rannsóknarefnið hér við þennan háskóla og Tímarit Jarðfræðifélags Nepal og fleiri krassandi tímarit safna óáreitt ryki svo árum skiptir. Ég er greinilega að fást við eitthvað frekar esóterískt hér.

Framleigjendurnir eru komnir í hús. Natasha kom áðan og fékk lyklana að íbúðinni og ég sýndi henni slotið. Slotið er orðið alveg svakalega fínt og ég dauðöfunda stelpurnar af að fá að búa þarna í sumar. Í eldhúsinu eru nýir countertops (þið þarna íslenskumælandi, hvað heitir svoleiðis??), gólfin olíuborin og fín og gluggakarmarnir nýmálaðir. Ég sagði henni að ég hefði aldrei séð íbúðina svona fína og hún var að vonum ánægð. Svo bætti ég við að ég væri ekki hrifin af formlegheitum eins og undirrituðum ástandslýsingum og treysti því að þær skiluðu íbúðinni í nákvæmlega jafngóðu ásigkomulagi og hún er í núna. Eins gott!

Á morgun er langur bíltúr fyrir höndum þegar við Greg sláumst í för með Louise vinkonu okkar og manninum hennar til Maine. Þau tvö eru að fara í fjölskylduheimsókn en við Greg ætlum að fara á eyjuna hans í Maine-flóa. Mig langar líka svoldið að fara í Acadia-þjóðgarðinn sem er víst alveg svakalega fallegur. Mikið hlakka ég til að sjá hafið, náttúrubarnið sem ég er.

Utankjörfundaratkvæði

Hvernig get ég kosið í forsetakosningunum, stödd eins og ég er í Brandararíkjunum? Einhver vitur þarna úti??

Fjör

Mikið rosalega væri ég til í að vera heima á Íslandi núna. Pólitíkin er svo spennandi, maður lifandi!

miðvikudagur, júní 02, 2004

VEIIIIII!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Ólafur rokkar! Vá, hvað ég er ánægð með manninn!