Aðvörun: Þessi póstur er langur og sennilega finnst flestum hann leiðinlegur, enda fjallar hann h.u.b. bara um jarðfræði og álíka skringilegheit. Lesið á eigin ábyrgð ;)
Ég má til með að segja lauslega frá síðustu tilfæringum og þróun mála hér í Íþöku. Þannig er mál með vexti að ástandið í Nepal, þar sem við höfum alltaf gert ráð fyrir að ég myndi vinna að doktorsverkefninu mínu, er orðið mjög skuggalegt og ekki beint fýsilegt að leggja upp í vísindalega langferð á þeim slóðum þessa dagana. Nepölsk kona sem við Lou, leiðbeinandinn minn, hittum í dag benti okkur á nokkur svæði þar sem við gætum hugsanlega unnið - því miður er ekkert á þeim svæðum sem tengist heitu hverunum og svæðin þar sem væri áhugavert að vinna eru þessi misserin undirlögð af maóistum.
Í ljósi þessa hefur verið smá heilastormur í gangi hér við að útbúa plan B, sem yrði sett í gang ef við afskrifum Nepal-verkefnið algjörlega. Ég er að lesa aftur helling af greinum sem ég las á hundavaði í vetur fyrir umræðukúrs í jarðefna- og landmótunarfræði í þeirri von að finna einhverjar spennandi spurningar sem enn hefur ekki verið svarað (það er nóg af þeim þarna úti). Lou hefur líka greinilega seilst ofan í nokkrar skúffur hjá sér og dregið fram gömul og ný gæluverkefni sem fyrri nemendum hans hefur ekki litist á einhverra hluta vegna.
Sjálfri datt mér í hug að skoða betur ýmis efnafræðileg ferli sem eru í gangi á efri breiddargráðum, með það fyrir augum að finna svör við spurningum um hlut efri vs. neðri breiddargráða í kólnuninni sem varð á sl. 15-20 milljónum ára um alla jörðina. Við ræddum þetta fram og til baka einn daginn og í ljós kom að þetta er allt of stórt verkefni til að gera í doktorsnámi. Vá, ég sem hélt að doktorsverkefni væru þau stærstu! Ferðalög til Kamtsjatka og Aleutian-eyjabogans eru sem sagt ekki á dagskránni á næstunni, helv. bömmer. Ég sem hélt að grad school væri ferðaskrifstofa.
Nei, bara segi svona. Það hefði verið mjög gaman að skoða þetta en ég ætla nú ekki heldur að vera í tíu ár að fá þessa gráðu mína hér.
Önnur hugmynd er komin upp á borð og snýst sú um að staga í upplýsingagatið sem er staðsett yfir SA-asísku eyjunum, milli meginlanda SA-Asíu og Ástralíu. Það er talið að magn sets sem berst með ám frá þessu svæði út í úthafið sé mjög mikið en lítil sem engin gögn eru til um efnasamsetningu árvatns frá þessum slóðum. Ef ég tek þetta verkefni að mér mun ég fara þangað niður eftir til að taka sýni nokkrum sinnum auk þess að sitja alveg heillengi við tölvu og nota landfræðileg upplýsingakerfi til að mjólka gögnin mín og annarra alveg eins og hægt er. Eins illa og mér er nú við hita og pöddur og gróður almennt (nema blómin á tröppunum hjá mér) hljómar þetta verkefni merkilegt nokk alveg ótrúlega spennandi. Ef við fengjum góðar niðurstöður myndu þær neflilega kannski gera okkur kleift að svara mikilvægum spurningum um samspil veðrunar og loftslags sem fólk hefur deilt um í mörg ár.
Spennó spennó... eða það finnst mér :)
miðvikudagur, júní 23, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli