Um daginn skrifaði ég kontaktinum mínum hjá IIE (Institute of International Education, stofnunin sem sér um Fulbright-styrkþega) vegna heimferðarinnar í júlí. Ég þarf að endurnýja vegabréfsáritunina mína heima og var nokkuð viss um að ég þyrfti einhverja pappíra til þess. Ljúflingurinn hún Jen svaraði póstinum mínum í dag með því að senda mér aftur einhvern langlokupóst sem ég fékk víst í mars og henti, enda var subject-línan eitthvað um heimferð að loknu námi. Eða svo sýndist mér. Turns out að pósturinn var um það hvernig maður viðheldur hinum sk. non-cash benefits sem fylgja Fulbright, þ.e. sjúkratryggingu (sem er nú ekki neitt svakalega góð, alla vega lítur Cornell ekki við henni) og vegabréfsáritun/löglegum innflytjendastatus. Umsókninni um þetta átti að skila inn ekki síðar en 1. mai.
Undirrituð fékk taugaáfall á staðnum. Sá fyrir mér að ég yrði deporteruð með háði og skömm og að fyrrverandi skólafélagar og vinir myndu kasta að mér eggjum og morknum tómötum og kalla mig unpatriotic.
Þessi martraðarsýn entist nú bara í nokkrar sekúndur; ég hristi hana af mér þar sem ég hentist af stað um bygginguna að leita að öllum þeim urmul af fólki sem þarf að skrifa undir hér og þar og pródúsera fylgibréf og stuðningsbréf. Að mesta æsingnum yfirstöðnum hringdi ég svo í ljúflinginn hana Jen og spurði hana, enn með öndina í hálsinum, hvort ég væri nokkuð í jafndjúpum skít og ég héldi. Hún hló og lofaði að redda málum.
Svo nú er ég komin í agalega gott skap aftur, alveg til í að fara að grilla pulsur og kyrja ættjarðarsöngva í rigningunni í Stewart Park núna á eftir.
fimmtudagur, júní 17, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli