Helgin fór vel af stað með bíóferð á föstudaginn. Jack skólafélagi minn hafði náð í miða fyrir nokkra af okkur jarðfræðinörðunum á frumsýninguna á Fahrenheit 9/11, það var að sjálfsögðu uppselt og langar biðraðir fyrir utan. Okkur var sagt að fólk sem býr í mörg hundruð mílna fjarlægð hefði hringt í eigendur bíósins til að reyna að fá miða!
Myndin er algjör snilld og ekkert að reyna að vera eitthvað annað en hún er: Harkaleg gagnrýni á Bush-stjórnina og allt sem hún stendur fyrir. Fólkið í salnum var vel með á nótunum, klappaði og blístraði og búaði eins og við hæfi var. Ég hef aldrei upplifað eins viðbrögð í lok myndar; þegar myndin endaði sátu allir sem fastast og enginn stóð upp fyrr en tjaldið var orðið myrkt og öll kreditin höfðu rúllað sitt skeið á enda. Þetta var svona furðuleg blanda af því að vera gjörsamlega ofboðið og vilja samt sjá meira.
Fór í gær með Louise vinkonu og Bruce samstarfsmanni okkar og hundunum hans tveimur að labba, við gengum þriðja legginn í sýslugöngunni sem genginn verður opinberlega þegar ég er á Íslandi. Fengum fínt veður og gengum þessar 8.1 mílur á fjórum tímum. Það verður nú að segjast eins og er að þetta er ekki neinn svakalegur meðalhraði. Vonandi bara að ég verði ekki skilin eftir oní polli einhvers staðar uppi á hálendi í göngunni miklu eftir rúma viku.
Sem minnir mig á: Það er að verða voðalega stutt í Íslandsferð. Hlakka til að sjá ykkur!!
sunnudagur, júní 27, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli