miðvikudagur, júní 30, 2004

Molar

Var á nördasamkomu ársins hér áðan. Eftir útiklúbbsfundinn fórum við nokkur sem leið lá heim til Donz og komum á leiðinni við á mexíkó-búllunni Viva og náðum okkur í burritos. Við hlustuðum á eina nýkomna frá Ekvador segja ferðasöguna (það sem eftir var af henni, í lok fundarins fengum við neflilega 205-mynda slædssjó) meðan við borðuðum og einhver minntist á vefsíðu klúbbsins. Umsvifalaust upphófust þvílíkar samræður um vefviðmót og servera og gvuðveithvað og áður en hendi væri veifað voru tvær ferðatölvur komnar upp á borðstofuborð og allir farnir að bauka við þráðlausu tenginguna og byrjaðir að forrita nýja vefsíðu. Við erum nördar af gvuðs náð.

Vinur minn hann Greg varð svo æstur á gestafyrirlestri í dag að við Louise urðum að fara með hann út að labba á eftir, svona til að hann næði andanum. Gestafyrirlesarinn var að tala um strendur og stöðugleika þeirra; til að rannsaka það fyrirbæri notast hann við aðferð sem var að nokkrum hluta þróuð af öldnum snillingi hér við Cornell sem nýlega lét af störfum. Aðferðin kallast "fractals" á ensku, ég hef ekki grænan guðmund um hvað það heitir á íslensku. Þetta er ákveðin stærðfræðileg nálgun sem má nota til að lýsa mjög mörgum fyrirbærum í náttúrunni, t.d. snjóflögum, verðbréfamörkuðum, strandlengjum og tíðni flóða í ám og fljótum. Þrátt fyrir lýsingakraft sinn geta fractals ekki útskýrt orsakir nokkurs skapaðs hlutar. Eitthvað fór það fyrir brjóstið á Greg og upphófust mjög skrautlegar rökræður milli hans og fyrirlesarans. Allt fór þetta reyndar vel fram en það tók drenginn smástund að ná sér niður. Gaman þegar vísindin hrista svona upp í fólki :)

Erna vinkona sendi mér pakka um daginn sem er í raun svo merkilegur að hann verðskuldar nánast sérbloggfærslu:

Þó þú langförull legðir sérhvert land undir fót...

Í pakkanum var frostþurrkaður þroskapottréttur í frostþurrkaðri rjómasósu. Þetta hljómar verra en það er; rétturinn er meðlimur norsku Real Turmat-fjölskyldunnar sem hefur haldið lífinu í ófáum Norðmanninum á norðurslóðum (og líka undirritaðri í ótal hádegispásum á vélsleðaferðum á Svalbarða). Þennan umrædda pakka keypti ég á Svalbarða vorið 2002 og tók með mér heim til Íslands þá um sumarið. Við Erna höfðum ákveðið að ganga frá Mývatni til Ásbyrgis og ég vildi endilega að við hefðum með léttan mat sem auðvelt væri að laga. Eitthvað borðuðum við minna á göngunni en til stóð svo þorskurinn og rjómasósan döguðu uppi á hillu hjá pabba hennar Ernu í Breiðholtinu. Fram að því hafði hann fengið að dinglast með í bakpokanum á puttanum frá Ásbyrgi á Húsavík, þaðan inn í Reykjadal þar sem slegið var upp tjaldi bak við félagsheimili og gist, svo áfram í bifreið dauðans: húsbíl þýskra hjóna (troðfullum af proviant) inn á Mývatn og þaðan upp að Kröfluvirkjun þar sem við lentum í gini fokills virkjunarstarfsmanns sem jós yfir okkur skömmum að við skyldum voga okkur að ganga leiðina svona snemmsumars, hvort við ætluðum að gjörsamlega rústa heiðunum og gljúfrunum með göslaraganginum á okkur. Hvorug okkar kunni við að benda manninum á að sama hvað við myndum reyna þá tækist okkur líklega seint að valda öðrum eins náttúruspjöllum og hans hágöfuga kompaní Landsvirkjun, svo við bara settum upp sparibrosið og örkuðum einbeittar af stað út í þokuna. Eftir villur, gust frá framliðnum, ískaldar og bólgnar ár í leysingum, meintar sandbleytur, flugbeitt grjót sem var vont að detta á, flóð í Vesturdal, stíflugerð í fornum farvegi og fjögurra daga sleitulaust labb komum við loks þreyttar og alsælar niður í Ásbyrgi þar sem bíllinn beið. Við brunuðum í sund á Húsavík og þaðan suður til Reykjavíkur eftir góðan nætursvefn á Staðarhóli þar sem ég þekkti til úr vinnunni minni sem gæd hjá Iceland Safari hér í den.

Eftir þessi ævintýri tók við verðskulduð hvíld frá brölti hjá þorskkássunni, það líður og bíður og kássan okkar situr bara uppi á hillu í Hólunum. Núna í maí fór Erna svo heim til Íslands á ríjúníon hjá MR-árganginum okkar og rakst á þorskinn uppi í hillu. Vitandi að ég er að fara í gönguferð uppi á hálendi núna í byrjun júlí tók hún stöppuna með sér út, svo að ég gæti tekið hana með í labbið. Þannig fór kássan aftur í flug, í þetta sinnið alla leið til Ameríku og pósturinn sá svo um, eins og áður sagði, að koma henni til Íþöku.

Sjálf hef ég hugsað mér að bera þennan trausta ferðafélaga minn síðustu sporin; yfir hafið aftur til Íslands og inn á hálendi. Þar munum við vonandi loks fá að renna saman í eitt, kannski við undirleik Kringilsár þar sem hún kemur undan jökli eða húkandi í skjóli fyrir veðri og vindum undir gulu skrímsli við rætur Kárahnjúks.

Engin ummæli: