Sit núna sveitt við að grafa upp upplýsingar úr rykföllnum skræðum úr kjallara bókasafnsins. Jarðfræði Himalaya-fjallanna er greinilega ekki vinsælasta rannsóknarefnið hér við þennan háskóla og Tímarit Jarðfræðifélags Nepal og fleiri krassandi tímarit safna óáreitt ryki svo árum skiptir. Ég er greinilega að fást við eitthvað frekar esóterískt hér.
Framleigjendurnir eru komnir í hús. Natasha kom áðan og fékk lyklana að íbúðinni og ég sýndi henni slotið. Slotið er orðið alveg svakalega fínt og ég dauðöfunda stelpurnar af að fá að búa þarna í sumar. Í eldhúsinu eru nýir countertops (þið þarna íslenskumælandi, hvað heitir svoleiðis??), gólfin olíuborin og fín og gluggakarmarnir nýmálaðir. Ég sagði henni að ég hefði aldrei séð íbúðina svona fína og hún var að vonum ánægð. Svo bætti ég við að ég væri ekki hrifin af formlegheitum eins og undirrituðum ástandslýsingum og treysti því að þær skiluðu íbúðinni í nákvæmlega jafngóðu ásigkomulagi og hún er í núna. Eins gott!
Á morgun er langur bíltúr fyrir höndum þegar við Greg sláumst í för með Louise vinkonu okkar og manninum hennar til Maine. Þau tvö eru að fara í fjölskylduheimsókn en við Greg ætlum að fara á eyjuna hans í Maine-flóa. Mig langar líka svoldið að fara í Acadia-þjóðgarðinn sem er víst alveg svakalega fallegur. Mikið hlakka ég til að sjá hafið, náttúrubarnið sem ég er.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli