mánudagur, maí 31, 2004

Þjóðflutningarnir miklu

Íþaka er á förum. Út úr svo til hverju einasta húsi streyma nýbakaðir útskriftarnemar og foreldrar þeirra með kassa og poka og lampa og örbylgjuofna og gettóblastera og einstaka sófa. Samleigjendur safnast saman á stéttinni fyrir utan, kynda upp í grillinu í síðasta sinn og fleygja á það pylsuræflunum sem fundust þegar mokað var út úr ísskápnum. Leigusalarnir taka yfir tómar íbúðirnar meðan vinirnir faðmast úti á götu og viðhaldsþjónustan byrjar að þrífa og sparsla og mála. Rigningin eykst og troðfullir bílarnir streyma út úr bænum.

Deepti fór fyrst og tók masterinn sinn í iðnaðarverkfræði með sér. Indverski vinur hennar úr næsta húsi keyrði hana og hann Raji frænda hennar út á rútustöð. Við tók 10 tíma ferð til DC og herbergi í húsi móðursystur hennar. Sú reddaði Deepti vinnu hjá fyrirtæki í borginni. Deepti er ekki ánægð; vinnan er ekki við hennar hæfi en betra en ekkert því eftir að taka lán upp á rúma 30.000 dollara vill maður ekki fara beint heim til Mumbai og fá 500 dollara í árslaun. Ég vildi óska að hún hefði fengið betri vinnu.

Næst fór Leticia. Tulika keyrði hana á rútustöðina, hún var að fara í 7 tíma skrölt til Ohio að heilsa upp á vin sinn José. Hún kemur aftur eftir viku og flýgur heim til Buenos Aires og kemur þá við heima til að ná í dót sem hún fékk að geyma hjá mér. Ef ótrúleg heppni er með henni verður hún áfram í Íþöku í vetur í doktorsnámi; hún hefur að öllum líkindum verið samþykkt inn í námið en lagadeildin veitir nánast aldrei styrki til doktorsnáms og án fulls styrks er ekki vinnandi vegur fyrir hana að vera hér. Ef byrjunarlaun eru lág á Indlandi eru þau enn lægri í Argentínu og Leticia er of skynsöm til að taka meiri lán en hún á eftir að geta endurgreitt á ævinni.

Áður en þær fóru kvaddi ég Tuliku líka. Hún er að fara til foreldra sinna á Long Island en flytur fljótlega til Pennsylvaniu-fylkis þar sem hún fékk flotta vinnu við hugbúnaðarþróun fyrir farsíma hjá Siemens. Hún ánafnaði mér örbylgjuofninum, brauðristinni og þráðlausa Internet-apparatinu og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Gott að koma ekki heim í alveg tómt kot.

Það verður nú tómlegt í Hlynskógum E5 í sumar. Kannski ég næli mér bara í nokkrar silfurskottur til að halda mér selskap.

Ah bú

Allir útskrifaðir, allir að fara. Fyrsta árinu lokið og á morgun verð ég ein í kotinu. Gangi ykkur allt í haginn, stelpur.

laugardagur, maí 29, 2004

Ég tók trú klukkan tíu

Með grýlukerti úr nösum, besserwisser helvítis fyrir aftan okkur og vont kaffi hlýddum við á goðið. Og tókum trú. Hlýðið á sjálf hér. Að athöfninni lokinni dembdum við okkur beint í þvöguna og náðum báðar mæðgurnar að taka í spaðann á kallinum. Agalega happý með það náttla og ætlum ekki að þvo okkur um hendurnar næstu vikur :)

Meira seinna.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Nostalgía

Er búin að hanga í bloggheimum í kvöld að njósna um íslenskar stelpur, sem ég þekki nb ekki neitt, í útlöndum. Ein er/var á rosa ferðalagi um Asíu, Arabíu og Evrópu og hinar tvær eru skiptinemar as we speak. Það var nú ekkert leiðinlegt að vera skiptinemi á sínum tíma og flakka svo um Evrópu og Suður-Ameríku mörgum árum seinna. Mæli eindregið með þessu fyrir alla, konur, börn og kalla!

þriðjudagur, maí 25, 2004

Manic Monday

Enn meiri fréttir af mínu óheyrilega spennandi lífi:

Kláraði módelverkefnið mitt, eftir að bölva og ragna hátt og í hljóði allan daginn yfir skipulagsleysi og geðveiki og einhverju fleiru sem mér fannst viðeigandi að yrði bölvað. Búin að vinna í margar vikur að einhverju módeli, bara til að benda því í ruslið á alsíðasta skiladag, smíða nýtt, keyra það tuttugu sinnum og skrifa nýja skýrslu. Allt saman gert á hálftíma svefni. Íha!

Þetta hafðist nú allt saman og ég er ekki frá því að ég hafi lært eitthvað. Það er náttla alltaf gaman. Var að enda við að seiva titilsíðuna á skýrslunni þegar mamma hringdi, komin heim í heiðardalinn í Hlynskógum E05. Tímasetningin gæti ekki verið betri :)

Það var ekkert smá notalegt að sjá mömmu og Kristján. Fórum á talandi bílaleigubílnum oní bæ að fá okkur nattemat, gengum fram á útigangsmann að hreiðra um sig fyrir nóttina undir umferðarbrú og döðruðum smá við sæta og svakalega unga þjóninn á veitingastaðnum. Honum fannst alveg nóg um og stokkroðnaði í hvert sinn sem hann þurfti að koma að borðinu okkar. Við erum alveg agalegar.

Ef einhvern langar í kæstan hákarl þá er bara að láta mig vita. Harðfiskur er líka til í kotinu núna, Hraun og nokkur gömul Fréttablöð. Vantar bara Gerði G. Bjarklind í útvarpið og lárétta rigningu og mér fer að líða eins og heima á Fróni.

mánudagur, maí 24, 2004

Sumarfrí

Þetta sumarið verður fríið alveg óheyrilega langt, a.m.k. á amrískan mælikvarða. Fer heim seinnipart þess 5. júlí og flýg aftur út þann 25. sama mánaðar. Heilar þrjár vikur, drottinn minn dýri. Ich bin krank.

Gangan alveg pottþétt inni. Heimferð var frestað til að hitta Júlíus bróður og fjölskylduna hans sem samanstendur af Addýju mágkonu og tvíburunum þeirra. Mér skilst líka að Ólöf frænka sé að fara í Aðalvík þarna á milli, mig langar mikið til að fara með í nokkra daga. Ég er samt ekki búin að segja henni það, so keep quiet, ok?

Rosalega hlakka ég til að fara í sumarfrí!! Silfurskotta fer nú samt alveg áreiðanlega með til Íslands, og allt sem í henni er... módelforrit og allt heila klabbið. Ef maður hugsar ekkert í þrjár vikur verður heilinn orðinn að algjörum moðgraut á eftir. Það var nógu erfitt að fást við það ástand allt haustmisserið, óþarfi að gera það aftur.

Er annars á fullu þessa stundina að klára verkefnið mitt í módelkúrsinum, við ákváðum á síðustu stundu (ekki elleftu, heldur frekar svona sirka hálf eitt) að henda öllu ruslinu sem útheimti svona mikla útreikninga og fara bakdyramegin... múff. BRJÁLUÐ törn í dag. Þarf að fá mér Molly's Allnighter á CTB bráðum, það er hálfur lítri af kaffi með ferföldum espressó (vá, þyrfti ekki bara að leggja mann inn með hjartsláttartruflanir eftir svoleiðis??). Nei nei. Er líka að kljást við faxvélar og bókunarsíður, er að skrá mig á síðustu stundu á eldfjallaráðstefnu í Chile í nóvember. Helgafell skal verða heimsfrægt, hvað sem það kostar (og ég líka :Þ)!!

Alveg hrikaleg læti

Náttúran er alveg að ganga af göflunum í nótt. Þrumuveðrið hófst sennilega um 1-leytið og enn sér ekki fyrir endann á því. Lætin þegar þrumurnar koma inn voru næg til að vekja mig um 4-leytið og nú sit ég við eldhúsbekkinn og les um jarðhitasvæði í Pakistan og sötra heitt kakómalt til að reyna að róa taugarnar. Ég verð svo spennt í svona spennandi veðri að mig langar mest að fara eitthvert út á bersvæði að skoða. Skilst að það sé ekkert voðalega góð hugmynd, svona upp á overlevelse að gera, svo ég hem mig.

Reyndar ákváðum við Greg að storka örlögunum í gærkvöldi (þ.e. á laugardagskvöldið) þegar svipaður stormur var á leiðinni inn. Við höfðum verið á Troy og vorum sennilega eitthvað innblásin af hetjum fornaldar (Brad Pitt í bíkíníinu sínu og París í hippamussunni, eins og Hallveig og Gunnar Hrafn bentu á). Himininn lýstist allur upp hvað eftir annað af eldingum í fjarska, of langt í burtu til að þruman heyrðist, og við máttum til að keyra út á golfvöll að skoða. Smám saman fórum við að heyra í þrumunum og þegar fyrstu vindhviðurnar komu hlupum við að bílnum. Á þessum tveimur mínútum sem það tók skall á alveg kolbikamyrkur og grenjandi rigning og eldingarnar leiftruðu allt um kring. Geðveikt!!

föstudagur, maí 21, 2004

Gnarrrrrrrr

Get svo svarið það að ég sá Jóni Gnarr bregða fyrir á götu hér áðan.

Það er Íslendingapartý í Íþöku í kvöld. Íha!!

fimmtudagur, maí 20, 2004

Þá er liðin þessi hálfs árs bið

og í ljós kom að Helgafell (þið vitið, þetta litla sæta við Kaldársel) er úr basalti. Við biðum sem sagt í hálft ár eftir að láta eitthvert apparat segja okkur það sem við vissum allan tímann! Nei, ekki alveg. Við vissum reyndar að Helgafell væri úr basalti en við vissum ekki alveg hundrað prósent hvort það væri þóleiít eða kannski pikrít. Sennilega ekki ankaramít (þó það sé langflottasta nafnið). Alveg áreiðanlega ekki Clintonít, því það er í fyrsta lagi steind, ekki berg, og í öðru lagi glimmer. Nú veit ég hins vegar að Helgafell er úr þóleiíti og ég segi það satt, þetta er mikill léttir.

Snillingaþing

verður hér í Íþöku bráðlega. Ekki nóg með að þau móðir mín og Kristján ætli sér að koma í heimsókn, nei, kallinn hann Bill Clinton er væntanlegur á svæðið á laugardaginn kemur til að tala við almúgann. Það þarf enga miða og ekkert vottorð frá CIA til að komast inn á leikvanginn þar sem hann talar, heldur bara að vera mætt/-ur vel fyrir kl. 6:30 þegar hliðin verða opnuð. Ég hef nú rifið mig upp út af minna, svo ég hef þvílíkt hugsað mér að tjalda fyrir utan og taka kíkinn minn, sem ég keypti á Svalbarða til að skima eftir rostungum og ísbjörnum á hafísnum, með mér. Ekki amalegt dýralíf þetta, fyrrverandi forseti Brandararíkjanna í pontu. Nei, svona í alvöru, hann var fínn forseti og ég hef trú á því að hann muni segja eitthvað af viti. Það er meira en ég mundi nokkurn tímann búast við af trúðinum sem nú situr í þessu háa embætti. Ef sá myndi gera sér ferð hingað til Íþöku til að halda ræðu myndi ég nú samt að sjálfsögðu ekki láta mig vanta. Eftir á gæti ég svo sagst hafa verið í sirkus.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Undraveröld Jöklu

Þar sem þessi árin eru síðustu forvöð að sjá alveg hrikalega mikið af ósnortinni náttúru norðan jökla sé ég mig tilneydda til að fara í skoðunarferð í sumar. Sómafélag að nafni Augnablik, sem ég þekki reyndar hvorki haus né sporð á nema nafnið, stendur fyrir alls konar gönguferðum þarna upp eftir í sumar og ég var að bóka mig í eina slíka, 7 daga ferð um "Undraveröld Jöklu og Kringilsárrana". Brottför er þann 8. júlí, og eins og glöggir lesendur hafa áttað síg á þýðir þetta að ég fer heim til Íslands í sumar!

Þetta verður nú samt snöggt bað, ætli ég stoppi ekki heima í svona 10 daga. Vísindin, sko. Náttúruskoðun verður að teljast drifkraftur fararinnar en ég ætla mér að nota tækifærið og hanga eins mikið og hægt er utan í henni Láru systur. Hún fer neflilega sem skiptinemi til Nýja-Sjálands í janúar á næsta ári og verður þar syðra í heilt ár, svo hver mínúta með henni skiptir máli.

mánudagur, maí 17, 2004

Í sambandi við allífið?

Meðan jarðarförin hans afa var að byrja var ég að klára stærðfræðipróf. Síðasta dæmið var strembið en rétt eftir kl. 11, þegar jarðarförin var að hefjast, fékk ég smá hugljómun og náði að leysa dæmið að hluta til. Seinni hluti hugljómunarinnar kom svo þar sem ég spókaði mig í sólskininu rétt eftir kl. tólf.

Sem minnir mig á tíma í tónheyrn við Söngskólann fyrir mörgum árum. Vinur minn Pétur Ingi hafði dáið nokkrum dögum áður. Pétur var mikill snillingur á mörgum sviðum, m.a. í tónlist. Ég hef hins vegar alveg sérstaklega slappt tóneyra og gat aldrei heyrt muninn á undunum (þó mér gangi yfirleitt ágætlega að halda lagi...). Kennarinn var orðinn töluvert þreyttur á okkur tóndaufu nemendunum sínum, stundi þungan og harmaði hlutskipti sitt. Þegar ég útskýrði fyrir honum að ég væri ekki alveg í sambandi vegna vinarmissis sljákkaði aðeins í honum, gott ef hann baðst ekki afsökunar á niðrandi ummælum í garð nemenda sinna. Svo spilaði hann önnur tíu tónbil fyrir okkur og hið ótrúlega gerðist, ég heyrði kristaltært hvaða undir voru þar á ferð, næstum eins og það væri ekki ég sjálf sem væri að hlusta. Þetta vakti að vonum athygli, en í næsta tónbila-bunka var snilldin horfin.

Mín skýring á instant snilld minni þegar mest þurfti á að halda er sú að hann Pétur hafi kíkt yfir öxlina á mér. Annars væri ég ekki alvöru Íslendingur. Ekki veit ég hvort hann afi heitinn var flinkur í stærðfræði, en kannski hann hafi þekkt formúluna fyrir keilu nógu vel til að geta leiðbeint dótturdótturinni þegar mest lá við. Takk skal dere ha, begge to.

Í minningu hans afa míns

Hann afi minn Bjössi dó þann 6. mai. Hann var búinn að vera veikur í mörg ár, svo veikur að hann þekkti okkur ekki þegar við komum í heimsókn. Mér fannst mjög erfitt að fara í heimsókn til hans og sjá hvað honum leið illa, það varð til þess að ég hafði ekki séð hann í heilt ár þegar hann dó. Megi afi hvíla í friði.

Undirbúningi lokið

Allt klárt fyrir þrekraunina. Síðasti hálfur annar tíminn hefur farið í að klippa og líma. Afrakstur þess er mitt prívat og persónulega hálmstrá, blaðsnepill með öllu námsefni misserisins í míníatúr-skrift, kóðað með litum. Ekki veit ég hvar ég væri án þessa blaðs; ég stend mig að því að kunna nánast allt sem á því stendur en sálrænn stuðningur þess er óumdeilanlegur. Prik til miskunnsamra stærðfræðiprófessora.

Nú er bara að slappa af og ná sér í góðan nætursvefn. Leticia hugsar vel um mig og gaf mér rauðvínsglas, svo ætla ég í heita sturtu og skríða í bólið. Ef e og pí og annar ófögnuður fer að spýtast undan augnlokunum í nótt hef ég Atómstöðina við rúmstokkinn, og í versta falli klára ég rauðvínsflöskuna :) Allt er betra en að mæta ósofin í stærðfræðipróf eins og undirrituð gerði fyrir jól.

Af gleðilegum atburðum dagsins ber að nefna að lagaskólinn útskrifaði í dag. Meðal þeirra sem fengu ferhyrndan hatt á höfðið var Leticia. Kærastinn hennar kom í bæinn til að vera viðstaddur, þau eru að vonum kát en verða væntanlega, sérstaklega þó Leticia sjálf, enn kátari á morgun. Þá skilar hún neflilega inn síðustu ritgerð vetrarins. Útskrift er sem sagt ekkert garantí fyrir að vera búinn, a.m.k. ekki hjá henni!

Fleiri spennandi og kætandi atburðir eru í uppsiglingu. Eftir stærðfræðiprófið í fyrramálið á ég bara eftir eitt verkefni, módel-verkefnið marg-um-tuðaða. Prófessorinn (les. villubaninn) fór úr bænum í dag og kemur ekki aftur fyrr en á fimmtudaginn. Ég hef sem sagt vikuna til að gera verkefnið, skil á föstudag, og ég ligg á bæn að forritið hegði sér. Wenn nicht...

Annars er sumarið bara langleiðina komið og ekkert nema gott eitt um það að segja. Sánuferðir eru að mestu leyti orðnar óþarfar (oh... þetta minnti mig á Grímsfjall í fyrra um þetta leyti og salíbununa mína úr gufunni þar... íha!) en baðferðir í fossa og ár fara alveg að verða aktúellar. Ætla að skella mér á kayak á Bíbí-vatni á þriðjudaginn og njóta sumarsins!

sunnudagur, maí 16, 2004

Tólf og hálfur tími

í eina lokapróf misserisins.

fimmtudagur, maí 13, 2004

FYI

langar undirritaðri að benda á að hún er ekki haldin bipolar disorder eða neinu svoleiðis. Hún er bara að reyna að vera optimístísk svona dags daglega en er innst inni orðin helvíti pirruð.

Leiðinleging??

Gasalega er ég að verða leiðinleg. Húki allan daginn yfir ljótu og skökku skrifborði í ofur-loftkældri skrifstofu þar sem ég les stærðfræði og hamast í biluðu líkan-forriti, án nokkurs sjáanlegs árangurs. Þetta er alveg fáránlegt. Eins gott ég verði ekki leyrð niður á morgun eða eitthvað, því þessa dagana er ekki verið að lifa lífinu eins og hver dagur væri sá síðasti. Nema þá í þeim skilningi að maður gæti hreinlega dáið úr leiðindum...

Virginity training

Eitt af því sem ég gerði mér ekki grein fyrir um Bandaríkin þegar ég flutti hingað var að stjórnvöld væru jafnofstækisfull í trúarmálum og raun ber vitni. Eftir smá vafr á Netinu fann ég þessa grein sem segir allt sem segja þarf um þá stefnu stjórnvalda hér að útrýma kynfræðslu fyrir unglinga og boða skírlífi fyrir hjónaband sem eina valkostinn. Mig langar að garga.

Þrumuveður

Sumarið er alveg greinilega tími þrumuveðranna hér í ofanverðu fylkinu. Dagurinn byrjar í hitasvækju, mollu og sól en þegar líða tekur að kaffileyti hrannast skýin upp, eldingarnar taka að leiftra og þrumurnar að dynja með þvílíkum látum að ég bíð bara eftir að sjá einhvern turnanna á kampus vera klofinn í herðar niður, eins og gerðist með Mattíasarborg í Ræningjaskógi (ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um er kominn tími á ykkur að lesa aftur söguna af Ronju ræningjadóttur þar sem okkur er kennt hvernig við eigum að hætta að hata óvini okkar og gera þá í staðinn að vinum. Held ég sendi Rumsfeld og W eintak). Eins og þið kannski gátuð ímyndað ykkur finnst mér þrumuveður alveg hrikalega spennandi, sérstaklega eftir að vera búin að sjá Hringadróttinssögu og Mordor með sínu eldspúandi fjalli... ég ímynda mér bara að ég sé komin þangað þegar þrumurnar dynja svo undir tekur, og þarf þá ekki að vera fúl þá stundina yfir að komast ekki í spennandi vettvangsferðir.

Skrapp út í búð áðan með regnhlífina hennar Helen yfir höfði mér. Inni í búðinni kemur til mín frekar uppburðarlítil stúlka sem horfir löngunaraugum á regnhlífina og segir mér að hún þurfi að labba alla leiðina yfir á norðurenda háskólasvæðisins. So what?? Ég er svo aumingjagóð að ég bendi henni á að þessi ágæta verslun sem við erum í selji regnhlífar. Þá átti hún ekki nógan pening. Ekki kreditkort heldur. En hún átti hundsaugu sem reyndu að betla af mér regnhlífina mína. Hvað hélt konan? Að ég ætlaði að labba með henni yfir hálft háskólasvæðið, svo hún þyrfti ekki að verða blaut?!

Ha ha ha

Sportive
You are Barbidur! I know it looks like you're a
detective from this picture, but you're
actually quite sporty! You love physical
action. Why don't you invite a few people to
touch your biceps right now?


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla en sótt til Gunnars Hrafns

miðvikudagur, maí 12, 2004

Mi hogar

Af gefnu tilefni set ég hér inn link á Fingravötnin. Akkuru? Jú, ég bý þessa stundina í Fingarvatnahéraði. Voða ídýllískt allt saman.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Um hugarstríð pönkarans

Var að lesa blogg pönkarans og hnaut um þessi orð hans um daga sem fara í vaskinn:

"Það besta við svona daga er að vita afhverju þeir eru dæmdir til niðurrifs, það versta er að vita að þeir eru ónýtir vegna þess sem maður leggur á sig fyrir peninga".

Áttaði mig á því að ég hef næstum því ekki gert neitt bara fyrir peninga í marga mánuði því ég er á launum við að læra; fæ borgað fyrir að gera það sem margir þurfa að borga fúlgur fyrir. Jú, þetta eru lúsarlaun miðað við margt annað sem ég hef gert í lífinu, en ég lifi af og vel það og hef tækifæri til að læra hluti sem mig hefur alltaf langað til að læra. Best af öllu er náttúrulega að ég þarf aldrei að borga einhverjum fúlum Lánasjóði til baka peninginn sem ég fæ reglulega inn á reikninginn minn! Ég á nú svoldið gott, ik'?

Möttulstrókur

Er einhver þarna úti sem veit hvað íslenski möttulstrókurinn bætir miklu efni við Ísland á ári?? Svar óskast í kúbikkílómetrum á ári (i.e. km3/yr).

mánudagur, maí 10, 2004

Ég er gíneusvín

að prufukeyra og (ekki af ásettu ráði) villu-finna hugbúnaðinn sem prófessorinn í módel-kúrsinum hefureytt síðustu árunum í að skrifa. Afritið af hugbúnaðinum sem ég fæ hjá honum (nýtt á hverjum degi, svo að segja) höndlar bara það sem hægt er að gera án þess að forrita, svo í hvert sinn sem ég gef einhver fyrirmæli sem útheimta frekari útlistun í kóða (á ekki að vera til staðar en er mjög víða) þá bara slekkur forritið á sér. Það er alveg stórskemmtilegt að fást við svona lagað þegar tæpar tvær vikur eru í verkefnaskil. Mér finnst að ég ætti að fá A+ í kúrsinum og væna summu í vasann eftir að vinna baki brotnu fyrir karlinn við að villuleita forritið hans. Sérstaklega þegar það tekur svo langan tíma að ég get ekki gert sómasamlegt verkefni! AAAAARRRRRRGGGGGGGGHHHHHHH!!!!!!!

Útvarp Nepal

er hér. Þið klikkið á linkinn á þrjúfréttirnar og getið þannig verið með mér í anda. Mér heyrist þeir vera að tala um Írak og Azerbaidjan, og eitthvað gæti verið að það hafi verið minnst á vefsíðu... Er annars einhver þarna úti sem veit hvernig mál nepalska er??

Flottur!!

Nýja lúkkið hjá blogger er alveg svaka flott. Nú verð ég að skrifa miklu oftar, það er svo gaman að vera á þessari flottu síðu!!

Harðsperrur dauðans

Þarf að fara að dansa salsa oftar, þá fengi ég kannski ekki svona svaðalegar harðsperrur af öllum mjaðmahnykkjunum í kayaknum. Er alveg að drepast!

Annars var hún Helen skrifstofufélagi minn að stinga að mér grein um mútugreiðslur bandarísks námufyrirtækis til skæruliða/hryðjuverkamanna á Filippseyjum. Síst til þess fallið að auka trú manns á stjórnvöld í Brandararíkjunum. Ljóta helv. pakkið!

Fortíðin vakin upp

Á sínum tíma ætlaði ég að halda úti sérbloggi fyrir Svalbarða. Eitthvað var tæknin að stríða mér á þeim tíma og mér tókst aldrei að públísera blessaðan blogginn. Svo í kvöld kom þetta allt saman. Verst að ég er hætt að vinna fyrir mér sem vélsleðagæd.

sunnudagur, maí 09, 2004

Úr lauginni

Fara á hvolf, spyrna sér úr bátnum, fara í bátinn, róa, fara á hvolf, rétta sig við með hendur á öðrum kayak, fara aftur á hvolf, halda í sér andanum og gá hvað maður geti verið lengi í kafi (ekki lengi...), rétta sig við, róa á hliðinni, róa meira á hliðinni, róa á hinni hliðinni, velta um koll, rétta sig við, rétta sig við, rétta sig við...

Maístressið

Allamalla... allt að hellast yfir mann... ARG!!!!

Er búin að nota daginn í að gera fyrirlestur fyrir tíma á þriðjudaginn. Ég er ekki einu sinni að taka kúrsinn til eininga, sit bara í tímum og soga í mig vitneskju (og dotta öðru hvoru líka). Lofaði samt að halda fyrirlestur eins og hinir nemendurnir og sit núna uppi með það. En hei, það er bara gaman, og ég valdi mér efni sem krefst þess ekki að ég sökkvi mér oní efnafræði og dýnamík: Skoða greinar um púlsvirkni í möttulstróknum undir Íslandi og reyna að ákveða út frá þeim hvort að gamla hugmyndin um að Ísland hafi risið úr sæ (sem flestir jarðfræðingar eru löngu búnir að henda fyrir róða) eigi kannski við einhver rök að styðjast. Smá vísindasaga sem sagt hérna megin.

Fór í heillangan göngutúr í gær með Louise skólasystur minni. Við gengur til liðs við alveg hreint gígantískan gönguhóp hér í nágrenninu og ætlum í göngu með þeim einu sinni í mánuði. Gangan hófst í gær við Caroline (lítill bær rétt hjá Íþöku) og mun enda í október í Robert Teman State Park. Þetta er sem sagt svona serial hike, og við fáum viðurkenningu ef við löbbum alla leið! Alveg eins og hjá tannlækninum í gamla daga. Hornhimnurnar námu engan annan lit en grænan eftir labbið í gær því gengið var gegnum skóg alla leiðina. Það var gaman að komast út úr bænum og sjá fólk sem ekki lifir lífi sínu í og við og gegnum þennan blessaða háskóla sem ég er í, hins vegar töluðum við Louise svo mikið saman að við náðum ekki að kynnast neinu nýju fólki eins og meiningin var. Verðum að bæta okkur í næstu göngu!

Í kvöld, eftir smá sessjón í módelsmíðaforritinu sem er að gera mig gráhærða (ég get bara unnið í því stuttan tíma í einu, verð að passa blóðþrýstinginn sko :) , er stefnan sett á laugarsessjón í kayak. Mig langar svo svakalega að læra að kayaka og alveg sérstaklega að gera eskímóarúllu, svo ég geti farið "på padletur" á Vestfjörðum og til Grænlands og Svalbarða og á Cayuga-vatni án þess að eiga á hættu að drukkna.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Wasa

Fann hrökkbrauðið góða frá Wasa í súpermarkaðinum mínum í kvöld. Mikil hamingja. Næst vonast ég til að finna HobNobs vel falið einhvers staðar í p&c.

Hver er meiningin??

Andsk. djö. helv. heimadæmi!!! Er ekki að verða komið nóg af þessum pyntingum?!?!

Attendez!!

Gasalega eru konur að verða flinkar í frönskunni eftir að hlusta á belgíska útvarpið daginn út og inn. Allt dívunni að þakka! Ætli ég geti lært nepölsku með þessari aðferð líka??

Magnolíupartý

var haldið heima hjá honum Símoni í kvöld. Þetta er víst árlegur atburður, nema hvað þetta árið misfórst tímasetningin svona hroðalega og magnolíublómin lágu flest örend á jörðinni þegar loks var haldið upp á blómgunina. Hvað um það, fjöldi fólks mætti engu að síður í líkförina og skemmti sér hið besta. Allar veitingar voru hvítar (hvítt brauð, hvít pina colada, hvítir kleinuhringir og hvítar kókosstangir, svo eitthvað sé nefnt) og nokkrir gestanna sinntu m.a.s. tilmælum um að klæðast hvítu. Við Jason þurftum ekkert á hvítum fötum að halda, nóg að bretta upp ermarnar og sýna alabasturshvíta hand- og fótleggi.

Af vísindaiðkunum er það helst að frétta að ég leita þessa dagana logandi ljósi að augnháraplokkara (hef aldrei átt svoleiðis, sko). Svoleiðis græja er neflilega líklega hentugasta verkfærið til að plokka glimmer-flögur af kvarz-sýnum sem leiðbeinandinn minn á úr gömlu "steingervðu" jarðhitakerfi frá Trisuli-dal. Það er búið að gera alls konar galgra við þessi sýni sem segja okkur á hvaða dýpi og við hvaða hita þau (kvarzið) myndaðist og nú langar okkur að vita hvenær sýnin mynduðust. Við teljum sem sagt að glimmerið hafi myndast á sama tíma og ætlum að senda það til geislameðferðar. Brjálað gaman!!

mánudagur, maí 03, 2004

Í dag var þetta helst

Síðasta kennslustundin í verklegu hjá mér þetta misserið er í kvöld. Það verður lítið kennt, krakkarnir fá bara seinna prófið sitt og verða vonandi fljót að svara því mér liggur á að komast á Chapter House að kveðja hana Gabrielu, verðandi meðleigjanda minn. Hún er að fara heim til Argentínu en kemur aftur í lok ágúst.

Við erum búnar að finna hugsanlega framleigjendur, tvær stelpur frá Íþöku sem eru í námi í NYC en langar að vera hér í sumar. Það á bara eftir að skrifa undir framleigusamninginn... ég ligg á bæn að allt gangi upp því þá þurfum við engar áhyggjur að hafa meir af íbúðinni.

Hádegisverðurinn var ágætur. Bara pizza og allt mjög óformlegt (ekki einu sinni gullrönd á pappadiskunum... ). Shell-náunginn sýndi okkur smá sýnishorn af því sem Skeljungur er að fást við í Mexíkóflóa, t.d olíuborpalla á stærð við Kópavog í byggingu í Kóreu og fálmara-bora sem geta stungið sér ofan í jörðina við Ásbyrgi og sogað út olíu á Kópaskeri... ekki slæmt það. Nú, svo tíundaði hann ýmsa kosti þess að vinna fyrir Skeljung, t.d. ferðalög sem stundum yrðu svoldið tú mötsj (t.d. á morgnana þegar hann væri á hraðbrautinni á leið í vinnunna og gæti ekki munað hvort hann væri í NO á leið á flugvöllinn til að fara til Houston eða öfugt. Ekkert smá steikt!) Það var sem sagt mjög gaman að hitta manninn, ég spurði hann út úr um endurnýjanlegar orkulindir og stefnu fyrirtækisins í þeim málum og aðrir spurðu út í tæknilegar hliðar á olíuvinnslunni. Ef olía væri ekki svona ill þá gæti verið gaman að vinna í þessum bransa, það er a.m.k. nóg aksjón. En mikið SVAKALEGA eru borpallar ljótir, mein Gott!

sunnudagur, maí 02, 2004

Í næsta lífi

ætla ég að verða kjarneðlisfræðingur og vinna hér.

Life takes you weird places

Á morgun er t.d. hádegisverðarboð fyrir nokkra framhaldsnema hér, þ.á.m. undirritaða, með aðstoðarforstjóra Shell. Deildin vill víst að hann viti hvað nemarnir hér eru að gera, ekki bara þeir sem eru að skoða olíuvæn jarðlög. "Ég var að læra að heilda tvöfalt!!" Ætli maður verði að passa geðveikt hvað maður segi til að stofna ekki í hættu fjárstuðningnum sem deildin fær frá kompaníinu??

laugardagur, maí 01, 2004

Vegajarðfræði

var stunduð í gær og dag. Ég laumaði mér með bergfræðibekknum í vettvangsferð að skoða myndbreytt berg (grjót sem hefur einhverra hluta vegna komist langt niður í jörðina og bakast þar) í Adirondack-fjöllunum, ekki langt frá þar sem við útiklúbbarar fórum í kuldabolaferðina í janúar. Þetta var bara ágætt, ég hlýddi kennaranum af mikilli röggsemi yfir jöklajarðfræði nágrenni Íþöku á leiðinni úteftir og barði grjót eins og vitlaus væri í vegarkantinum í dag og náði mér þannig í góð sýni af grjóti sem aldrei sést heima á Íslandi. Þema ferðarinnar var garnet, hún Sarah er mikill garnet-aðdáandi og reyndi allt hvað hún gat til að fá hann Bob, prófessor ferðarinnar, til að fara að heimsækja (lokaða) námu lengst inni í fjallabálkinum þar sem garnet-kristallar á stærð við fótbolta liggja fyrir hunda og manna fótum. Það tókst ekki hjá henni, og í staðinn keyrðum við milli bergstála við veginn og rétt skruppum út úr bílnum til að geta lamið smá grjót. Mér telst til að lengsti göngutúr ferðarinnar hafi verið einir 80 m, svo það er ekki hægt að kvarta yfir að verið sé að píska manni út.

Gærkvöldið var voða næs. Við gistum í húsi í fjöllunum sem deildin á, hinum margfræga Bender-kofa sem hefur staðið deildarfólki til afnota, bæði fyrir skólann og í einkaerindum, gegnum árin. Við kveiktum varðeld og kjöftuðum, svo þegar fór að rigna fóru allir inn að sofa nema ég sem setti upp tjaldið í snarhasti og sofnaði svo við undirleik regndropanna. Agalega notalegt!