mánudagur, maí 17, 2004

Í sambandi við allífið?

Meðan jarðarförin hans afa var að byrja var ég að klára stærðfræðipróf. Síðasta dæmið var strembið en rétt eftir kl. 11, þegar jarðarförin var að hefjast, fékk ég smá hugljómun og náði að leysa dæmið að hluta til. Seinni hluti hugljómunarinnar kom svo þar sem ég spókaði mig í sólskininu rétt eftir kl. tólf.

Sem minnir mig á tíma í tónheyrn við Söngskólann fyrir mörgum árum. Vinur minn Pétur Ingi hafði dáið nokkrum dögum áður. Pétur var mikill snillingur á mörgum sviðum, m.a. í tónlist. Ég hef hins vegar alveg sérstaklega slappt tóneyra og gat aldrei heyrt muninn á undunum (þó mér gangi yfirleitt ágætlega að halda lagi...). Kennarinn var orðinn töluvert þreyttur á okkur tóndaufu nemendunum sínum, stundi þungan og harmaði hlutskipti sitt. Þegar ég útskýrði fyrir honum að ég væri ekki alveg í sambandi vegna vinarmissis sljákkaði aðeins í honum, gott ef hann baðst ekki afsökunar á niðrandi ummælum í garð nemenda sinna. Svo spilaði hann önnur tíu tónbil fyrir okkur og hið ótrúlega gerðist, ég heyrði kristaltært hvaða undir voru þar á ferð, næstum eins og það væri ekki ég sjálf sem væri að hlusta. Þetta vakti að vonum athygli, en í næsta tónbila-bunka var snilldin horfin.

Mín skýring á instant snilld minni þegar mest þurfti á að halda er sú að hann Pétur hafi kíkt yfir öxlina á mér. Annars væri ég ekki alvöru Íslendingur. Ekki veit ég hvort hann afi heitinn var flinkur í stærðfræði, en kannski hann hafi þekkt formúluna fyrir keilu nógu vel til að geta leiðbeint dótturdótturinni þegar mest lá við. Takk skal dere ha, begge to.

Engin ummæli: