Náttúran er alveg að ganga af göflunum í nótt. Þrumuveðrið hófst sennilega um 1-leytið og enn sér ekki fyrir endann á því. Lætin þegar þrumurnar koma inn voru næg til að vekja mig um 4-leytið og nú sit ég við eldhúsbekkinn og les um jarðhitasvæði í Pakistan og sötra heitt kakómalt til að reyna að róa taugarnar. Ég verð svo spennt í svona spennandi veðri að mig langar mest að fara eitthvert út á bersvæði að skoða. Skilst að það sé ekkert voðalega góð hugmynd, svona upp á overlevelse að gera, svo ég hem mig.
Reyndar ákváðum við Greg að storka örlögunum í gærkvöldi (þ.e. á laugardagskvöldið) þegar svipaður stormur var á leiðinni inn. Við höfðum verið á Troy og vorum sennilega eitthvað innblásin af hetjum fornaldar (Brad Pitt í bíkíníinu sínu og París í hippamussunni, eins og Hallveig og Gunnar Hrafn bentu á). Himininn lýstist allur upp hvað eftir annað af eldingum í fjarska, of langt í burtu til að þruman heyrðist, og við máttum til að keyra út á golfvöll að skoða. Smám saman fórum við að heyra í þrumunum og þegar fyrstu vindhviðurnar komu hlupum við að bílnum. Á þessum tveimur mínútum sem það tók skall á alveg kolbikamyrkur og grenjandi rigning og eldingarnar leiftruðu allt um kring. Geðveikt!!
mánudagur, maí 24, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli