Allt klárt fyrir þrekraunina. Síðasti hálfur annar tíminn hefur farið í að klippa og líma. Afrakstur þess er mitt prívat og persónulega hálmstrá, blaðsnepill með öllu námsefni misserisins í míníatúr-skrift, kóðað með litum. Ekki veit ég hvar ég væri án þessa blaðs; ég stend mig að því að kunna nánast allt sem á því stendur en sálrænn stuðningur þess er óumdeilanlegur. Prik til miskunnsamra stærðfræðiprófessora.
Nú er bara að slappa af og ná sér í góðan nætursvefn. Leticia hugsar vel um mig og gaf mér rauðvínsglas, svo ætla ég í heita sturtu og skríða í bólið. Ef e og pí og annar ófögnuður fer að spýtast undan augnlokunum í nótt hef ég Atómstöðina við rúmstokkinn, og í versta falli klára ég rauðvínsflöskuna :) Allt er betra en að mæta ósofin í stærðfræðipróf eins og undirrituð gerði fyrir jól.
Af gleðilegum atburðum dagsins ber að nefna að lagaskólinn útskrifaði í dag. Meðal þeirra sem fengu ferhyrndan hatt á höfðið var Leticia. Kærastinn hennar kom í bæinn til að vera viðstaddur, þau eru að vonum kát en verða væntanlega, sérstaklega þó Leticia sjálf, enn kátari á morgun. Þá skilar hún neflilega inn síðustu ritgerð vetrarins. Útskrift er sem sagt ekkert garantí fyrir að vera búinn, a.m.k. ekki hjá henni!
Fleiri spennandi og kætandi atburðir eru í uppsiglingu. Eftir stærðfræðiprófið í fyrramálið á ég bara eftir eitt verkefni, módel-verkefnið marg-um-tuðaða. Prófessorinn (les. villubaninn) fór úr bænum í dag og kemur ekki aftur fyrr en á fimmtudaginn. Ég hef sem sagt vikuna til að gera verkefnið, skil á föstudag, og ég ligg á bæn að forritið hegði sér. Wenn nicht...
Annars er sumarið bara langleiðina komið og ekkert nema gott eitt um það að segja. Sánuferðir eru að mestu leyti orðnar óþarfar (oh... þetta minnti mig á Grímsfjall í fyrra um þetta leyti og salíbununa mína úr gufunni þar... íha!) en baðferðir í fossa og ár fara alveg að verða aktúellar. Ætla að skella mér á kayak á Bíbí-vatni á þriðjudaginn og njóta sumarsins!
mánudagur, maí 17, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli