mánudagur, maí 31, 2004

Þjóðflutningarnir miklu

Íþaka er á förum. Út úr svo til hverju einasta húsi streyma nýbakaðir útskriftarnemar og foreldrar þeirra með kassa og poka og lampa og örbylgjuofna og gettóblastera og einstaka sófa. Samleigjendur safnast saman á stéttinni fyrir utan, kynda upp í grillinu í síðasta sinn og fleygja á það pylsuræflunum sem fundust þegar mokað var út úr ísskápnum. Leigusalarnir taka yfir tómar íbúðirnar meðan vinirnir faðmast úti á götu og viðhaldsþjónustan byrjar að þrífa og sparsla og mála. Rigningin eykst og troðfullir bílarnir streyma út úr bænum.

Deepti fór fyrst og tók masterinn sinn í iðnaðarverkfræði með sér. Indverski vinur hennar úr næsta húsi keyrði hana og hann Raji frænda hennar út á rútustöð. Við tók 10 tíma ferð til DC og herbergi í húsi móðursystur hennar. Sú reddaði Deepti vinnu hjá fyrirtæki í borginni. Deepti er ekki ánægð; vinnan er ekki við hennar hæfi en betra en ekkert því eftir að taka lán upp á rúma 30.000 dollara vill maður ekki fara beint heim til Mumbai og fá 500 dollara í árslaun. Ég vildi óska að hún hefði fengið betri vinnu.

Næst fór Leticia. Tulika keyrði hana á rútustöðina, hún var að fara í 7 tíma skrölt til Ohio að heilsa upp á vin sinn José. Hún kemur aftur eftir viku og flýgur heim til Buenos Aires og kemur þá við heima til að ná í dót sem hún fékk að geyma hjá mér. Ef ótrúleg heppni er með henni verður hún áfram í Íþöku í vetur í doktorsnámi; hún hefur að öllum líkindum verið samþykkt inn í námið en lagadeildin veitir nánast aldrei styrki til doktorsnáms og án fulls styrks er ekki vinnandi vegur fyrir hana að vera hér. Ef byrjunarlaun eru lág á Indlandi eru þau enn lægri í Argentínu og Leticia er of skynsöm til að taka meiri lán en hún á eftir að geta endurgreitt á ævinni.

Áður en þær fóru kvaddi ég Tuliku líka. Hún er að fara til foreldra sinna á Long Island en flytur fljótlega til Pennsylvaniu-fylkis þar sem hún fékk flotta vinnu við hugbúnaðarþróun fyrir farsíma hjá Siemens. Hún ánafnaði mér örbylgjuofninum, brauðristinni og þráðlausa Internet-apparatinu og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Gott að koma ekki heim í alveg tómt kot.

Það verður nú tómlegt í Hlynskógum E5 í sumar. Kannski ég næli mér bara í nokkrar silfurskottur til að halda mér selskap.

Engin ummæli: