fimmtudagur, maí 13, 2004

Þrumuveður

Sumarið er alveg greinilega tími þrumuveðranna hér í ofanverðu fylkinu. Dagurinn byrjar í hitasvækju, mollu og sól en þegar líða tekur að kaffileyti hrannast skýin upp, eldingarnar taka að leiftra og þrumurnar að dynja með þvílíkum látum að ég bíð bara eftir að sjá einhvern turnanna á kampus vera klofinn í herðar niður, eins og gerðist með Mattíasarborg í Ræningjaskógi (ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um er kominn tími á ykkur að lesa aftur söguna af Ronju ræningjadóttur þar sem okkur er kennt hvernig við eigum að hætta að hata óvini okkar og gera þá í staðinn að vinum. Held ég sendi Rumsfeld og W eintak). Eins og þið kannski gátuð ímyndað ykkur finnst mér þrumuveður alveg hrikalega spennandi, sérstaklega eftir að vera búin að sjá Hringadróttinssögu og Mordor með sínu eldspúandi fjalli... ég ímynda mér bara að ég sé komin þangað þegar þrumurnar dynja svo undir tekur, og þarf þá ekki að vera fúl þá stundina yfir að komast ekki í spennandi vettvangsferðir.

Skrapp út í búð áðan með regnhlífina hennar Helen yfir höfði mér. Inni í búðinni kemur til mín frekar uppburðarlítil stúlka sem horfir löngunaraugum á regnhlífina og segir mér að hún þurfi að labba alla leiðina yfir á norðurenda háskólasvæðisins. So what?? Ég er svo aumingjagóð að ég bendi henni á að þessi ágæta verslun sem við erum í selji regnhlífar. Þá átti hún ekki nógan pening. Ekki kreditkort heldur. En hún átti hundsaugu sem reyndu að betla af mér regnhlífina mína. Hvað hélt konan? Að ég ætlaði að labba með henni yfir hálft háskólasvæðið, svo hún þyrfti ekki að verða blaut?!

Engin ummæli: