fimmtudagur, maí 20, 2004
Snillingaþing
verður hér í Íþöku bráðlega. Ekki nóg með að þau móðir mín og Kristján ætli sér að koma í heimsókn, nei, kallinn hann Bill Clinton er væntanlegur á svæðið á laugardaginn kemur til að tala við almúgann. Það þarf enga miða og ekkert vottorð frá CIA til að komast inn á leikvanginn þar sem hann talar, heldur bara að vera mætt/-ur vel fyrir kl. 6:30 þegar hliðin verða opnuð. Ég hef nú rifið mig upp út af minna, svo ég hef þvílíkt hugsað mér að tjalda fyrir utan og taka kíkinn minn, sem ég keypti á Svalbarða til að skima eftir rostungum og ísbjörnum á hafísnum, með mér. Ekki amalegt dýralíf þetta, fyrrverandi forseti Brandararíkjanna í pontu. Nei, svona í alvöru, hann var fínn forseti og ég hef trú á því að hann muni segja eitthvað af viti. Það er meira en ég mundi nokkurn tímann búast við af trúðinum sem nú situr í þessu háa embætti. Ef sá myndi gera sér ferð hingað til Íþöku til að halda ræðu myndi ég nú samt að sjálfsögðu ekki láta mig vanta. Eftir á gæti ég svo sagst hafa verið í sirkus.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli